Lög félagsins

Heimili og varnarþing

  1. Félagið heitir Félag sálgreina á Íslandi (Association of Psychoanalytic Psychotherapists / Psychoanalysts in Iceland). Lögheimili og varnarþing þess er í Reykjavík.

Markmið og félagsaðild

  1. Markmið Félags sálgreina á Íslandi er að tryggja að almenningur á Íslandi geti treyst því að félagsmenn þess uppfylli viðhlítandi kröfur um menntun og faglega hæfni. Þá er félaginu ætlað að efla faglega meðferðarvinnu sálgreina og stuðla að umræðu um sálgreiningu í íslensku samfélagi.
  2. Félagið er opið þeim sem hafa: a. Lokið viðurkenndu klínísku meðferðarnámi í sálgreiningu / sálkönnun og geta því kallað sig sálgreini / sálgreinanda / sálkönnuð. b. Samþykkt starfs- og siðareglur félagsins og aðhyllast markmið þess.
  3. Almennur félagi í Félagi sálgreina á Íslandi er hver sá sem hefur staðist ofangreindar kröfur og hefur hlotið samþykki fagráðs félagsins. Heiðursfélagi getur sá orðið sem hefur að mati stjórnar og fagráðs félagsins aukið vegsemd sálgreiningar á Íslandi eða erlendis.
  4. Til að sækja um aðild að Félagi sálgreina á Íslandi skal skila inn:
    1. Útfylltu umsóknareyðublaði (sem fæst hjá félaginu).
    2. Lífsferilskrá (Curriculum Vitae).
    3. Gögnum sem staðfesta:
      1. Námslok.
      2. Klíníska meðferðarvinnu.
      3. Handleiðslu.
      4. Persónulega meðferð.
    4. Umsóknargjaldi.

Fagráð

  1. Félag sálgreina á Íslandi starfar í tengslum við yfirvöld heilbrigðis- og tryggingamála á Íslandi. Í fagráði Félags sálgreina á Íslandi sitja tveir kosnir fulltrúar úr stjórn félagsins og einn fulltrúi landlæknisembættis. Fulltrúi landlæknis skal hafa þekkingu á eðli sálgreiningarmeðferðar.
  2. Fagráð tekur á faglegum álitamálum og fagráð annast í samstarfi við félagsmenn endurskoðun á starfs- og siðareglum félagsins.
  3. Fulltrúi í fagráði sem ekki er sálgreinir skal ekki hafa hagsmuna að gæta sem skarast gætu á við hagsmuni félagsmanna í Félagi sálgreina á Íslandi.

Aðalfundur

  1. Aðalfundur félagsins skal haldinn vor hvert.
  2. Aðalfundur / félagsfundur telst löglega boðaður ef fundarboð er sent með tölvupósti eða bréfleiðis til félaga með a.m.k. tíu daga fyrirvara.
  3. Allir skráðir félagar hafa rétt til setu og atkvæðisrétt á aðalfundi.
  4. Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs.
  5. Á aðalfundi skal kosin þriggja manna stjórn auk endurskoðanda.
  6. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
    1. Fundur settur.
    2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
    3. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár lögð fram til samþykktar.
    4. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
    5. Kosning í stjórn.
    6. Kosning endurskoðanda.
    7. Ákvörðun félagsgjalda og umsóknargjalds.
    8. Lagabreytingar.
    9. Tillaga stjórnar um starfsáætlun lögð fram.
    10. Önnur mál.
    11. Fundarslit.
  7. Félagsfundur er atkvæðisbær ef a.m.k. 3/5 félagsmanna eru mættir.

Stjórn

  1. Í stjórn sitja formaður, ritari og gjaldkeri sem kosnir eru á aðalfundi.
  2. Stjórn skal funda að minnsta kosti 4 sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir.
  3. Stjórn félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins.
  4. Stjórn hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess.

Reikningsár og félagsgjöld

  1. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
  2. Á aðalfundi skulu lagðir fram reikningar undirritaðir af stjórn og endurskoðanda.

Lagabreytingar

  1. Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til stjórnar a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.
  2. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins.
  3. Lagabreytingar teljast samþykktar ef 3/5 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar.

Slit félagsins

  1. Félagi sálgreina á Íslandi má slíta með ákvörðun 3/5 skuldlausra félaga á aðalfundi eða á félagsfundi.
  2. Náist ekki tilskilinn félagafjöldi á aðalfundi / félagsfundi má halda framhaldsfund og þarf þá samþykki 3/5 fundarmanna til að félagið verði leyst upp.
  3. Við slit félagsins skulu eignir, ef einhverjar eru, renna til geðræktar.