Starfs- og siðareglur
- Sálgreinir hefur velferð skjólstæðinga sinna í fyrirrúmi og fer ekki í manngreinarálit. Hann virðir sérhvern einstakling óháð kyni, kynhneigð, kynþætti, trú, örorku, stjórnmálaskoðun, fjárhags- eða félagslegri stöðu.
- Sálgreinir starfar á grundvelli faglegrar menntunar og siðferðilegra sjónarmiða. Honum er óheimilt að gefa misvísandi upplýsingar varðandi þjálfun sína og menntun og ber að sýna staðfestingu þar að lútandi sé þess óskað.
- Auglýsingar sálgreinis skulu takmarkast við upplýsingar um þjónustu hans og menntun. Sálgreini er óheimilt er að halda því fram að þjónusta hans sé áhrifaríkari en annarra fagstétta.
- Sálgreini ber að starfa við viðeigandi aðstæður þar sem næði er tryggt á meðan á viðtölum stendur.
- Í byrjun meðferðar skal sálgreinir gera samkomulag við skjólstæðing. Í því samkomulagi skal skýrt kveðið á um gjald fyrir hvert viðtal, greiðslur fyrir tíma sem ekki er mætt í, fjölda viðtala í viku/mánuði, fyrirkomulag fría og lok meðferðar.
- Sálgreinir er bundinn trúnaði um hvaðeina sem hann verður áskynja um í samskiptum við skjólstæðing. Einungis með samþykki skjólstæðings er honum heimilt að greina þriðja aðila frá því sem fram fer í meðferð.
- Undantekningu frá þagnarskyldu má sálgreinir eingöngu gera ef borgaraleg skylda krefur, þ.e. ef sálgreinir telur skjólstæðing eða aðra vera í hættu. Veiti skjólstæðingur ekki samþykki sitt við slíkar aðstæður þarf sálgreinir engu að síður að sinna skyldu sinni en láta jafnframt skjólstæðing sinn vita um fyrirætlan sína.
- Leiki grunur á að skjólstæðingur eigi við líkamlega eða vefræna vanheilsu að stríða ber sálgreini að ráðleggja honum að leita læknis.
- Sálgreinir þarf í senn að þekkja möguleika sálgreiningar og takmarkanir hennar. Hann vísar skjólstæðingum sínum til annarra fagaðila, s.s. sálfræðinga, fjölskylduráðgjafa eða geðlækna telji hann að meðferðarúrræði þeirra muni þjóna hagsmunum skjólstæðings betur.
- Þegar um alvarlegar geðraskanir er að ræða veitir sálgreinir ekki viðvarandi meðferð án þess að ráðfæra sig við geðlækni með íslenskt lækningaleyfi. Sá mun þá annast geðlæknisfræðilega greiningu og veita læknisaðstoð sína. Tilvísun er til þess fallin að kanna hvort til séu geðlæknisfræðilegar lausnir, aðrar en þær sem sálgreinir hefur yfir að ráða, sem gagnast geti skjólstæðingi.
- Sálgreining og geðlyfjameðferð geta farið saman. Sálgreinir leiðbeinir ekki um notkun geðlyfja heldur vísar til læknis með íslenskt lækningaleyfi sem þá ber ábyrgð á þeim hluta meðferðar.
- Samskipti sálgreinis og skjólstæðings einskorðast við meðferð. Sálgreinir má ekki undir nokkrum kringumstæðum misnota aðstöðu sína og notfæra sér skjólstæðing sinn tilfinningalega, kynferðislega eða fjárhagslega.
- Sálgreinir tekur ekki til meðferðar náin skyldmenni, vini eða samstarfsmenn.
- Það er hluti af faglegri skyldu sálgreinis að leita handleiðslu samstarfsmanna og annarra fagaðila. Þá sem endranær ber sálgreini að gæta nafnleyndar og standa í hvívetna vörð um persónulegar upplýsingar skjólstæðings.
- Hafi sálgreinir í hyggju að nýta efnivið úr meðferð til fræðilegra rannsókna ber honum að upplýsa skjólstæðing um slíkt og leita hjá honum skriflegs samþykkis.
- Vísi sálgreinir til efnis úr meðferð í ræðu eða riti skal hann búa svo um hnútana að útilokað sé að rekja efnið til upprunans.
- Óski sálgreinir eftir að taka upp meðferðarviðtöl þarf hann að fá skriflegt samþykki skjólstæðings þar sem skýrt er kveðið á um til hvers upptökur verða notaðar.
- Sálgreini ber að viðhalda þekkingu sinni og færni með símenntun sem er ætlað að tryggja endurnýjun og viðhald faglegrar þekkingar. Til símenntunar telst m.a. lestur fagtímarita og bóka, greinaskrif, ráðstefnur, málstofur, fyrirlestrar, vinnubúðir, leshópar, námskeið, klínískir umræðufundir, handleiðsla og persónuleg meðferð. Þessi upptalning er leiðbeinandi en ekki tæmandi. Sálgreinir skal halda til haga gögnum sem staðfesta símenntun hans.
- Sálgreinir skal hafa sjúklingatryggingu.
- Komi til kæru skjólstæðings á hendur sálgreini ber honum skylda til að gera fagráði Félags sálgreina á Íslandi viðvart án tafar.
- Sálgreini ber að forðast hegðun sem gæti skaðað orðspor hans, stéttarinnar og starfsfélaga.