Spurningar og svör

Hvað er sálgreiningarmeðferð?

Sálgreiningarmeðferð er viðtalsmeðferð sem byggir á samnefndum kenningum um mótun og þroska persónuleikans. Aðferðin felst í sjálfskoðun og hefur það að markmiði að draga úr þjáningum af sálrænum og tilfinningalegum toga.

Sálgreiningarmeðferð grundvallast á þeirri hugmynd að hegðun, hugsanir, líðan og viðhorf manna ákvarðist að verulegu leyti af dulvituðum (ómeðvituðum) hluta huga þeirra. Sá hluti lýtur ekki meðvitaðri stjórn. Þegar skjólstæðingurinn talar óhindrað fær sálgreinirinn innsýn í hugarheim hans og þannig leitast sálgreinirinn við að hjálpa skjólstæðingi sínum að átta sig á minningum, þörfum, innri hvötum og óskum sem hann er ekki meðvitaður um. Aukin vitund gerir skjólstæðingnum betur kleift að ná tökum á lífi sínu.

Sálgreiningarmeðferð á rætur að rekja til Sigmunds Freud á fyrri hluta síðustu aldar. Frá þeim tíma hafa fjölmargir sálgreinar þróað kenningar hans áfram og hefur sú þróun haldist í hendur við aukna þekkingu á ýmsum sviðum og gleggri sýn á mannlega hegðun. Hugmyndir manna í dag um möguleika og takmarkanir sálgreingarmeðferðar eru töluvert breyttar frá upphaflegum kenningum Freuds.

Fara efst á síðu

Hvers konar vandamál er hægt að takast á við í sálgreiningarmeðferð?

Margs konar tilfinningalega erfiðleika, meðal þeirra eru:

Fara efst á síðu

Hvað gerir skjólstæðingurinn í sálgreiningarmeðferð?

Skjólstæðingur í sálgreiningarmeðferð og sálgreinir eru samstarfsaðilar sem takast á hendur fremur sérstæða rannsókn á lífi og líðan þess fyrrnefnda. Á sama hátt og hver einstaklingur er sérstakur þá er hver meðferð einstök. Skjólstæðingurinn situr í stól eða liggur á bekk og talar. Það eru engin sértstök málefni á dagskrá. Skjólstæðingurinn ræðir um hvað sem hann vill og hann þarf ekki að halda sig við ákveðið efni. Með frásögn sinni veitir hann innsýn í fortíð sína, líf sitt í dag og framtíðarsýn. Hann deilir með sálgreininum draumum sínum, hugrenningum, kynferðislegum hugsunum, tilfinningum og hugmyndum sem hann hefur um sjálfan sig og aðra. Með tímanum verður hann meðvitaður um hvatir, tilfinningar og minningar sem áður voru dulvitaðar.

Fara efst á síðu

Hvað gerir sálgreinirinn?

Megin hlutverk sálgreinis er að skilja sjúklinginn og til þess þarf hann að hlusta af fullri athygli. Jafnframt því að hlusta á frásögn skjólstæðingsins er hann vakandi fyrir ósögðum vísbendingum. Hann beitir hugsun jafnframt því sem hann fylgist með tilfinningalegum viðbrögð sínum, spyr spurninga og setur fram tilgátur. Markmið sálgreinisins er að skilja hvaða merking liggur í orðum og atferli skjólstæðings síns og að miðla til hans því sem verður áskynja.

Fara efst á síðu

Hvað er átt við með að eitthvað sé ómeðvitað eða dulvitað?

Þegar talað er um dulvitund (undirvitund) eða að eitthvað sé dulvitað (ómeðvitað) er vísað til margvíslegrar hugarstarfsemi, óska, þarfa, viðhorfa, minninga og skoðana sem maður hefur ekki beinan aðgang að. Mörgum finnst erfitt að sætta sig við þessa hugmynd, að eitthvað sem þeir vita ekki af og hafa þar af leiðandi ekki stjórn á geti haft áhrif á hvernig þeir lifa lífinu. En þegar grannt er skoðað kemur iðulega í ljós að margt af hugmyndum fólks, ákvörðunum og skoðunum byggjast á viðhorfum sem það í fljótu bragði vissi ekki að það hefði. Sama er oft að segja um sára reynslu, í stað þess að verða að minningu sem fólk getur gripið til “gleymist” hún. þ.e.a.s. fólk man hana ekki. Hún hefur engu að síður áhrif á hegðun og/eða líðan. Fólk er líklegra til að viðhalda einkennum sem standa því fyrir þrifum (s.s. átröskun, tortryggni, lágt sjálfsmat) eða verða fórnarlömb eigin hegðunar (ofneysla áfengis, fjöllyndi, sjálfskaði) þrátt fyrir góðan vilja og einlægan ásetning ef það áttar sig ekki á hvað knýr það áfram. Sálgreiningarmeðferð veitir fólki innsýn í dulvitaðar hugarheim með því að gefa gaum að hegðun, mismælum, draumum úr vöku jafnt sem svefni og hverju því sem kann að koma upp í hugann.

Fara efst á síðu

Hvers vegna eru draumar taldir mikilvægir í sálgreiningarmeðferð?

Draumar geta gegnt mikilvægu hlutverki í sálgreiningarmeðferð vegna þess að þeir eru taldir vísa greiðasta leið að því sem er dulvitað. Í draumum birtast oft í dulbúningi dulvitaðar þarfir, togstreita, minningar og óskir. Þegar draumar eru túlkaðir með hjálp sálgreinis opnast oft augu einstaklingsins fyrir hugmyndum og tilfinningum sem hann áttaði sig ekki á að hann hefði.

Fara efst á síðu

Af hverju liggur fólk á bekk?

Bekkurinn er líklega vinsælasta brandaraefni sálgreiningar en er engu að síður gagnlegt hjálpartæki meðferðar. Fyrir marga skjólstæðinga er hann kærkomið tækifæri til að slaka á, gleyma stund og stað og úr augsýn sálgreinisins geta þeir á afslappaðan hátt rætt um hugsanir sínar og tilfinningar. Bekkurinn undirstrikar líka að meðferð er ekki venjulegt spjall heldur sérstakt samtal sem hefur skýran og afmarkaðan tilgang.

Fara efst á síðu

Hvað er mótstaða?

Að því kemur í hverri meðferð að skjólstæðingurinn sýnir viðbrögð sem vinna ekki með framgangi meðferðarinnar. Þessi viðbrögð kallast mótstaða og teljast til varnarhátta. Mótstaða getur birst með því að skjólstæðingurinn:

Þessi viðbrögð, og fjölmörg önnur einkenni mótstöðu, hindra skjólstæðinginn í að læra um sjálfan sig, þroskast og verða sú manneskja sem hann vill verða. Í sameiningu skoða skjólstæðingur og sálgreinir merkingu og tilgang mótstöðunnar og reyna að losa um hana.

Fara efst á síðu

Hvað er yfirfærsla?

Sálgreinar áttuðu sig snemma á því að skjólstæðingar þeirra áttu til að hafa ónákvæma mynd af þeim og eigna þeim viðhorf og skoðanir sem þeir könnuðust ekki við að hafa. Fremur en að leiðrétta misskilninginn er lögð áhersla á að skoða mynd skjólstæðingsins því hún á sér yfirleitt að einhverju leyti rót að rekja til mikilvægra persóna í fortíð hans, s.s. foreldra, kennara eða systkina. Stundum samsvara tilfinningarnar raunverulegum tilfinningum til einhvers úr fortíðinni en í öðrum tilvikum birta þær þrá eftir nánum tengslum við einhvern mikilvægan. Tilfinningar sem vakna í tengslum við sálgreininn geta verið af ýmsum toga, engar tilteknar tilfinningar eru réttar eða meira viðeigandi en aðrar, þvert á móti er mikilvægt að skjólstæðingurinn meðtaki og gangist við öllu litrófinu. Í hefðbundinni sálgreiningu felst þungamiðja meðferðarinnar í að skoða og skilja tilfinningar og hugmyndir sem beinast að sálgreininum í þeim tilgangi að varpa ljósi á önnur sambönd skjólstæðingsins; Hvaða væntingar hann hefur til annarra og hvaða viðhorf hann ætlar öðrum að hafa til sín.

Fara efst á síðu

Er sálgreiningarmeðferð bara um það sem gerðist í barnæsku?

Fyrstu ár ævinnar hafa mikilvæg og varandi áhrif á mótun persónuleikans. Rætur tilfinningalegra erfiðleika kunna að liggja í áföllum í bernsku, að þörfum hafi ekki verið mætt, fjölskylduvandamálum og / eða atburðum síðar á lífsleiðinni. Ekki er hægt að vita hver rót vandans er að óathuguðu máli. Þess vegna þarf að gefa gaum að fortíðinni til að greina hvaða barnslegu viðhorf og skoðanir annarra lifa áfram með manni og hvaða mynstur hefur maður óafvitandi haldið í. Fortíðin skiptir fyrst og fremst máli þegar hún hindrar fólk í að njóta sín í nútíðinni.

Fara efst á síðu

Snýst sálgreiningarmeðferð aðallega um kynlíf?

Margir hafa lesið eða heyrt um byltingarkenndar uppgötvanir Sigmunds Freud um vægi kynferðislegra hugsana og tilfinninga í lífi fólks. Hafa ber í huga að flestir skólstæðinga Freuds voru konur, börn Viktoríutímans eins og hann, þrúgaðar af kynferðislegri bælingu. Frá þessum tíma hafa bæði aðstæður og áherslur breyst, vissulega ræða margir um kynlíf í sálgreiningarmeðferð en ofar á baugi í lífi margra er glíma við reiði, einsemd, tómleika, erfiðleika í samböndum eða óörugga sjálfsmynd. Nútíma sálgreinar gera því skóna að margar hvatir aðrar en kynvötin eigi þátt í mótun persónuleikans.

Fara efst á síðu

Hvað tekur sálgreiningarmeðferð langan tíma?

Það eru engin tímatakmörk á sálgreiningarmeðferð og tímalengdin ein og sér segir ekkert um ástand viðkomandi. Þau persónuleikaeinkenni og viðhorf sem kunna að vera manni fjötur um fót eiga sér yfirleitt margra ára sögu og breytingar á þeim taka tíma. Sumir hafa gagn af tiltölulega skömmum tíma (sex mánuðum eða minna) en aðrir kjósa að halda áfram í nokkur ár. Fólk ætti að taka með fyrirvara meðferðartilboðum sem gefa fyrirheit um miklar breytingar á skömmum tíma.

Fara efst á síðu

Hvenær lýkur sálgreiningarmeðferð?

Ástæður þess að fólk leitar sér meðferðar eru margvíslegar og lok meðferðar taka mið af þeim árangri sem skjólstæðingurinn sækist eftir. Almennt má þó segja að tímabært sé að huga að lokum meðferðar þegar skjólstæðingurinn hefur aðgang að tilfinningum sínum og hugsunum, góðum og slæmum, og í stað þess að finna sig knúinn til að bregðast við þeim getur hann hugsað um þær og rætt við sálgreininn. Síðast en ekki síst er markmkiðið að hann geti hagað lífi sínu samkvæmt bestu vitund, sem eðli málsins samkvæmt á að vera talsvert aukin frá byrjun meðferðar.

Fara efst á síðu

Hvernig hefur sálgreining breyst eftir Freud?

Kenningar sálgreiningar og meðferð byggð á þeim hafa tekið talsverðum breytingum frá kenningum Sigmunds Freud. Athygli hans beindist einkum að mikilvægi föðurins og hvernig maðurinn fengi meðfæddum eðlishvötum sínum fullnægt. Hann lagði sérstaka áherslu á þróun kynhvatar og taldi Ödipusarskeiðið gegna lykilhlutverki í mótun persónuleikans, þ.e.a.s. tímabilið frá fjögurra til sex ára aldurs, þegar börn verða ástfangin af foreldri af gagnstæðu kyni. Síðan þá hafa sálgreinar lagt meira upp úr því að rannsaka hvernig einstaklingar ná að verða aðgreindar manneskjur með sterka sjálfsvitund og hvernig tengsl þeir mynda við aðra. Tengslum við móður er gefið meira vægi og kastljósinu er beint að fyrstu æviárunum. Samtíma sálgreiningarkenningar taka einnig meira mið af áhrifum ytra umhverfis.

Freud og samstarfsmenn hans töldu að sálgreiningarmeðferð hentaði fyrst og fremst fólki sem væri vel greint og menntað, hefði aðeins óveruleg sjúkdómseinkenni og gæti komið daglega til meðferðar. Eina framlag sálgreinisins til samræðnanna skyldi vera túlkun eða skýring á hegðun eða líðan skjólstæðingsins. Í dag koma skjólstæðingar sjaldnar í viðtalstíma, erfiðleikar þeirra eru af ýmsum toga og sálgreinar bregðast við skjólstæðingum sínum á mun fjölbreyttari hátt. Meira er lagt upp úr því að aðlaga meðferðina að þörfum skjólstæðingsins þó svo að sálgreinar haldi sig innan ákveðins ramma.

Fara efst á síðu

Eru margar stefnur innan sálgreiningar?

Frá upphaflegu sálgreiningakenningum Freuds í byrjun 20. aldar hafa fjölmargar stefnur komið til sögunnar sem kenndar eru við höfunda þeirra, s.s. Jung, Adler, Horney, Sullivan, Klein, Kohut, Winnicott, Balint o.fl. Hver sálgreiningarstefna einbeitir sér að afmörkuðum þáttum meðferðar eða persónuleika. Munurinn á milli stefnanna hefur orðið minna áberandi með tímanum og fæstir sálgreinar binda trúss sitt við eina afmarkaða stefnu heldur fleyta rjómann af mörgum.

Fara efst á síðu

Hver er helsti munurinn á sálgreiningarmeðferð og annars konar sálfræðimeðferð?

Til eru fjölmargar tegundir meðferðar sem ekki er hægt að gera skil hér. Hvað varðar sálgreiningarmeðferð þá er gengið út frá því að fortíðin skipti máli og að hegðun okkar og líðan ákvarðist að verulegu leyti af tilfinningum og hugmyndum sem við erum ekki meðvituð um. Það er sérkenni sálgreiningarmeðferðar að sálgreinir leiðbeinir hvorki né ráðleggur skjólstæðingum sínum hvernig þeir eigi að haga lífi sínu eða leysa erfiðleika. Leiðarljós hans er að efla sjálfræði skjólstæðingsins og í því augnamiði leitast hann við að hjálpa honum að skilja hvað stendur í vegi fyrir að hann njóti sín sem skyldi.

Fara efst á síðu

Er sálgreiningarmeðferð úrelt eða tískubóla?

Tískubólur skjóta upp kollinum í meðferðargeiranum líkt og annars staðar. Það heitasta í dag heitir hugræn atferlismeferð. Um hana er margt gott að segja, bara ekki að hún henti öllum. Sama er að segja um sálgreiningarmeðferð. Hún á sér rúmlega hundrað ára sögu og þeim tíma hefur hún stöðugt aukið við þekkingu á innviðum mannsins. Meðferðin hentar ekki öllum en hún er mikilvægur valkostur fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna sálrænna og tilfinningalegra erfiðleika.

Fara efst á síðu

Er sálgreiningarmeðferð flótti frá lífinu eða hækja til að styðja sig við?

Sálgreiningarmeðferð getur verið ánægjuleg og notaleg en hún er líka hörkuvinna. Stundum halda vinir og fjölskylda skjóstæðinga að þetta sé sjálfsvorkunn eða tilgangslaus naflaskoðun, en hver sá sem hefur gengið í gegnum slíka meðferð getur staðfest að í stað þess að flýja vandamálin er einmitt verið að horfast í augu við raunveruleikann. Fólk kann að verða háð meðferðinni um tíma, en markmiðið er að styðja það til að standa á eigin fótum.

Fara efst á síðu

Getur maður breytt sér sjálfur ef maður er nógu ákveðinn?

Viljasterk manneskja getur dulið einkenni um vanlíðan með einbeittum vilja og sjálfsaga, en afleiðingin er oft sú að vanlíðanin brýst út á dulvitaðan hátt án þess að viðkomandi átti sig á samhenginu.

Fara efst á síðu

Getur maður sálgreint sjálfan sig?

Gagnrýnin sjálfsskoðun er öllum holl, en flestir glíma við það mikla mótstöðu að innsæið sem þeir öðlast upp á eigin spýtur er yfirleitt fremur yfirborðslegt eða staðfestir viðhorf sem þeir þegar hafa. Þess vegna er ekki líklegt að sjálfsskoðun án aðstoðar fagmanneskju leiði til grundvallarbreytinga.

Fara efst á síðu

Hvernig er námi sálgreina háttað?

Sálgreiningarnám er strangasta námið í meðferðargeiranum. Gerð er krafa um BS gráðu eða sambærilegt námsstig. Algeng grunnmenntun er geðlækningar, sálfræði, félagsráðgjöf eða hjúkrunarfræði en inntökuskilyrði einskorðast ekki við þessi fög og taka mið af fleiri þáttum en menntun. Meðferðarþjálfun er yfirleitt ekki í boði í háskólum heldur fer fram hjá sjálfstæðum viðurkenndum fagstofnunum. Á námstímanum þarf sálgreiningarneminn að undirgangast ítarlega sálgreingu, ljúka yfirgripsmiklu fræðilegu námi, skrifa fræðilegar námsritgerðir og meðhöndla skjólstæðinga undir handleiðslu reyndra sálgreina. Námið tekur minnst 4-6 ár og lýkur þegar handleiðarar og kennarar eru ásáttir um að neminn hafi náð tilskilinni færni.

Fara efst á síðu

Hvernig velur maður sálgreini?

Sálgreinir á að hafa menntun frá viðurkenndri stofnun í því landi sem hann lærði og tilheyra viðurkenndum samtökum sálgreina þess lands og/eða hér á landi. Þegar viðkomandi hefur valið sér sálgreini er ráðlegt að semja um 4-6 tíma áður en lengri skuldbinding er gerð til þess að hann fái ráðrúm til að átta sig á hvort hann geti unnið með viðkomandi sálgreini.

Fara efst á síðu

Skiptir máli hvort sálgreinirinn er karl eða kona?

Fyrir fæsta skiptir kyn sálgreinisins máli. Til eru undantekningar frá því, sérstaklega ef skjólstæðingurinn hefur andúð á öðru kyninu, en slíkt myndi augljóslega hefta hann. Þegar öllu er á borninn hvolft skiptir mestu máli að velja meðferðaraðila sem maður finnur að maður getur talað við og treyst. Ef svo er ekki á fólk ekki að hika við að leita annað.

Fara efst á síðu